Fréttir
Útilíf til nýrra eigenda
8. apríl 2021
Íslensk fjárfesting og J.S. Gunnarsson hafa í sameiningu keypt Útilíf af Högum. Eftir kaupin er Íslensk fjárfesting 60% hluthafi en J.S. Gunnarsson heldur á 40% hlut í félaginu.
Kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.
Útilíf var stofnað árið 1974 og hefur allt frá stofnun sérhæft sig í að þjónusta útivistar- og íþróttafólk sem gerir kröfur um gæði og þjónustu. Hjá Útilíf starfa um 40 manns. Styrkur Útilífs liggur meðal annars í fjölbreyttu vöruúrvali og þekktum vörumerkjum sem henta jafnt áhugamönnum og fjölskyldum þeirra sem og þeim sem lengra eru komnir í sínu sporti. Útilíf rekur tvær verslanir á höfuðborgarsvæðinu, í Kringlunni og í Smáralind auk vefverslunar og hefur um árabil verið umboðsaðili vörumerkja eins og The North Face, Rossignol, Nordica, Leki, Meindl, Deuter og Blizzard. Útilíf er einnig söluaðili fyrir Nike, Adidas, Speedo, Under Armour, Arena og Didriksons svo dæmi séu nefnd.
Íslensk fjárfesting er fjárfestingarfélag í eigu Arnars Þórissonar og Þóris Kjartanssonar. Fjárfestingar félagsins hafa einkum verið á sviði ferðaþjónustu, heilbrigðisþjónustu og fasteignaþróunar. J.S. Gunnarsson er innflutningsfyrirtæki sem sérhæfir sig í innflutningi og sölu á útivistar-, sport- og skófatnaði. Helstu vörumerki fyrirtækisins í dag eru Didriksons, Viking, Kombi, Arena, Sixmix, Tamaris ásamt fleirum. Fyrirtækið er í eigu Heiðu Gunnarsdóttur, Jóhanns Inga Gunnarssonar og Steindórs Gunnarssonar.
„Markmið nýrra eigenda er að byggja á góðum grunni Útilífs sem útivistar- og íþróttaverslun en leggja á sama tíma áherslu á sókn í útivistarvörum bæði í verslunum Útilífs og í gegnum vefverslun. Viðskiptavinir Útilífs er stór og breiður hópur og er markmið okkar að skapa fyrirtækinu meiri sýnileika og að sækja fram í sérfræðiþjónustu við útivistar- og skíðafólk. Þarna sjáum við mörg tækifæri til að styðja enn betur við sölu á þekktum vörumerkjum Útilífs með sókn í þjónustu og sölu fyrir allt útivistarfólk“ segir Einar Þór Steindórsson, framkvæmdastjóri fjárfestinga hjá Íslenskri fjárfestingu.
Hörður Magnússon hefur verið framkvæmdastjóri Útilífs undanfarin ár og mun halda áfram sem framkvæmdastjóri með nýjum eigendum í þeirri vegferð sem framundan er. Hörður segist spenntur fyrir næsta kafla í sögu Útilífs: „Smásölumarkaðurinn er á fleygiferð um þessar mundir. Það eru í gangi miklar breytingar á lífsstíl og áhugamálum þjóðarinnar og síauknar kröfur eru gerðar um vandaða vöru og rétta persónulega þjónustu á sama tíma og hinn stafræni heimur er að bylta samskiptum við viðskiptavinina. Framtíðin hefur aldrei verið jafn spennandi og full af tækifærum. Stjórnendur og nýir eigendur hafa metnað og vilja til að grípa þessi tækifæri tveim höndum.”
„Með sölunni á Útilíf erum við að einfalda rekstur Haga og einbeita okkur í ríkari mæli að skilgreindri kjarnastarfsemi, á dagvöru- og eldsneytismarkaði. Við óskum nýjum eigendum til hamingju með kaupin og velfarnaðar í rekstri Útilífs. Einnig þökkum við starfsfólki Útilífs fyrir frábært samstarf á liðnum árum og óskum þeim góðs gengis í nýrri sókn“ segir Finnur Oddsson forstjóri Haga.
Skilafrestur framlengdur
Rýmri skilafrestur á jólainnkaupunum
28. desember 2020
Vegna aðstæðna og samkomutakmarkana mun Útilíf taka við skilavöru eftir jólatörnina út janúar 2021. Skilyrði fyrir skilum er eins og venjulega að skilamiði frá Útilíf sé á vörunni og veitt er inneignarnóta í staðinn.
Endurgreiðsla er aðeins möguleg gegn framvísun kvittunar og aðeins í 14 daga eftir kaup eins og venjulega.
Ný vefsíða
Útilíf opnar nýja vefsíðu með vefverslun
15. janúar 2020
Viðskiptavinir okkar hafa beðið spenntir eftir og mikið spurt um bætt aðgengi að vöruflóru okkar og úrvali á netinu.
Í dag opnuðum við nýja vefsíðu fyrir Útilíf. Á síðunni er fullkomin vefverslun þar sem mjög stór hluti af vöruúrvali Útilífs er nú þegar kominn inn. Við stefnum á að bæta inn vörum jafnt og þétt og að vöruúrvalið í vefversluninni endurspegli alveg úrvalið í verslunum okkar. Það er ekki ólíklegt að það verði meira að segja enn meira á vefnum en í verslununum í framtíðinni.
Við hlökkum til að fá ykkur í heimsókn á www.utilif.is