Blogg

 

 

Gengið að gosinu

Ágúst 2022

Gosmynd2021

Njótum náttúrunnar í allri sinni dýrð en hugum að því að vera vel búin.

Vantar þig eitthvað fyrir góða göngu að eldgosinu?

Við hjá Útilíf mælum með þessum búnaði í göngu að eldgosinu:

- Gönguskór með góðum sóla  Karlar  Konur

- Ullargöngusokkar 

- Húfa og vettlingar

- Létt dún eða trefja úlpa Karlar  Konur

- Flís eða ullarpeysa  Karlar  Konur

- Góðar göngubuxur og regnbuxur Karlar Konur

- Góðan dagbakpoka fyrir nestið og aukafötin

- Höfuðljós

- Vatnsbrúsa /Hitabrúsa

- Gott nesti

- Sjúkrataska

- Göngustafir

- Sólgleraugu

- Vind- og vatnsheldur jakki Karlar  Konur

- Sími og hleðslubanki

- GPS tæki eða gps í síma

Góða ferð!

 

Tjaldað í garðinum (garðútilegan) tjaldnúar

Febrúar 2022

Að tjalda í garðinum að vetrarlagi er eitthvað sem kviknaði út frá áhuga á því hvernig maður þyrfti að vera græjaður til að líða vel í vetrarútilegu. Til að flækja ekki hlutina þá er einfalt að vera stutt frá heimili til að geta tekið þátt í verkefnum fjölskyldunnar. Maður vaknar 6:50 og fer inn að vekja börnin. Í janúarkuldanum komst ég strax að því að svefnpokinn var ekki gerður fyrir þetta frost og ég þurfti því að uppfæra hann. Maður er fljótur að finna út hvernig er best að vera klæddur en það er alltaf ullin næst manni sem virkar best. Svo fer það eftir hita- og rakastigi hverju maður bætir á sig. Ég sef alltaf með húfu og vettlinga ásamt því að skella hlaðvarpi í eyrun til að sofna út frá. Það getur líka deyft vindgnauðið sem getur verið nokkuð hátt. Góð dýna er auðvitað nauðsynleg líka til að einangra mann frá kulda af jörðinni. Nauðsynlegt er að fara ekki svangur að sofa í tjaldinu og það er eins og með aðra útivist, þar sem maður fer ekki svangur í fjallgöngu. Líkaminn þarf orku til að halda á sér hita og þetta atriði bætti svefninn töluvert. Samkvæmt gögnum af Garmin-úrinu mínu sef ég miklu dýpra í ferska loftinu, það er eitthvað sem ég finn greinilega. Þessi tilfinning sem maður finnur að loknum svefni eftir langan dag úti, t.d. á fjöllum, fer með manni út í daginn þegar maður vaknar í tjaldinu. Andlit og varir eiga það til að þorna svolítið í kuldanum og því er gott að hafa gott krem og varasalva fyrir nóttina. Ég er alltaf spenntur þegar að janúar kemur og garðútilegan hefst. Mæli með að þið prófið þetta.

 

Uppáhalds fjallgangan

Janúar 2022

Að fara á topp hæsta tinds Hrútfjallstinda (1875 m) er sennilega skemmtilegasta og mest krefjandi ganga sem ég hef farið í hér heima. Við félagarnir Haraldur og Kristjón fórum af stað í Skaftafell og settum upp tjald á föstudagskvöldi og gerðum okkur klára fyrir að leggja af stað klukkan 02:00 um nóttina. Þetta var falleg sumarnótt í byrjun júní og við toppuðum klukkan 09:00 um morguninn í sól og logni. Það er sennilega ekki oft logn þarna á toppnum. Við vorum einir á toppnum en á leiðinni upp voru nokkrir stærri hópar sem lögðu af stað um leið og við.

Þetta var löng ganga á jöklabroddum og man ég hversu gott var að komast af þeim þegar við vorum á leiðinni niður. Við höfðum undirbúið okkur vel líkamlega og gátum því tekið þetta á góðum og þægilegum hraða og um leið notið þess allan tímann að vera í þessu ótrúlega landslagi.

Við komum niður á bílaplan um klukkan 14:00 þannig að þetta var ca. 12 tíma ganga. Eftir að við komum að tjaldinu aftur fórum við og böðuðum okkur og fengum okkur kvöldmat. Síðan var farið aftur í tjaldið og slakað á og hlegið að þessari skemmtilegu ferð enda búnir að vera vakandi í tæplega 40 tíma. Ganga á Hrútfjallstinda er að mínu mati meira krefjandi og skemmtilegri heldur en ganga á Hvannadalshnjúk. Báðar göngurnar eru algerlega frábærar en það er fjölbreyttara landslag að ganga í á Hrútfjallstindum. Varðandi líkamlega getu til að geta farið í þessar göngur, þá er mikilvægt að skoða það vel og prófa sig áfram.

Þegar ég er að skipuleggja mig fyrir lengri ferðir þá hugsa ég alltaf: Magnús, annað hvort þjáist þú í æfingunum eða þú þjáist á fjallinu. Mér finnst því betra að reyna að vera í góðu formi og lenda ekki í basli með þol eða styrk á fjöllum.

Þú þarft að samþykkja skilmála um persónuvernd og gagnaölfun til að geta haldið áfram  Sjá skilmála