Hvernig á að velja sér utanvegahlaupaskó | utilif.is

Hvernig á að velja sér utanvegahlaupaskó?

Meginmunurinn á götuhlaupaskó og utanvegahlaupaskó er á hvaða undirlagi hann er notaður. Í utanvegahlaupaskóm er best að hafa skó með góðu gripi, vörn, stuðning og stöðugleika fyrir ójafnt undirlag.

Grip

Því dýpra mynstur á sólanum, því betra grip gefur skórinn í mýkra og lausari undirlagi. Styttri, þéttari og breiðari mynstur er nóg á harðari stígum sem gefur betri stöðugleika og hagkvæmni.
Mikið af utanvegahlaupaskóm hafa milligrófann sóla sem gerir okkur kleift að nota hann í flest öllum aðstæðum.

Vörn

Utanvegahlaupaskór hafa yfirleitt meiri vörn heldur en götuhlaupaskór. Auka vörn yfir tábergið, þykkari yfirbygging og sumir hafa harða plötu í sólanum sem vernda fyrir oddhvössum steinum.
Því eru utanvegahlaupaskór yfirleitt mjög endingagóðir þrátt fyrir grófa undirlagið sem þeir eru notaðir á.

Stuðningur og stöðugleiki

Gott er að hafa góðan stuðning undir fætinum, sem heldur manni vel í erfiðu undirlagi og bröttum brekkum.
Stífari skór getur hjálpað að auka stöðugleika og getur gefið þér betra sjálfstraust í erfiðari aðstæðum. Mýkri skór gefa þá minni stöðugleika í erfiðum aðstæðum en henta vel á harðari undirlagi og í rólegri hlaupum.

Hvaða eiginleikum á ég að leita eftir í utanvegahlaupaskóm?

Að hafa skó sem sérstaklega eru hannaðir fyrir það undirlag sem þú hleypur á getur hjálpað að auka sjálfstraust og getu á stígunum eða utan vega.

En þar sem endalausir möguleikar eru af mismunandi skóm, hvernig skó ætti ég að velja?  

Þá er best að spyrja sig eftirfarandi spurninga:

  • Á hvernig undirlagi mun ég hlaupa?
  • Hver eru mín markmið í hlaupum?
  • Hvaða vegalengdir ætla ég að hlaupa?

    Undirlag

    Í blautu og mjúku undirlagi þarf grófara og dýpra mynstur þar sem gott bil er á milli takka svo mold og drulla festist ekki undir skónum. Góður stuðningur undir fætinum mun svo hjálpa þér í ójöfnu undirlagi.

    Í grófu og erfiðu undirlagi þarf stífari skó fyrir betri stöðugleika, sterkari yfirbyggingu mun svo vernda fótinn fyrir steinum.

    Ef þú munt hlaupa á breytilegu undirlagi og aðalega á harðari malarstígum? Þá er best að hafa léttann og liprann skó með grynnra mynstri, það mun gefa nóg grip á flest öllu undirlagi. Þynnri og stífari botn gerir skóinn léttari og stöðugri (fóturinn situr því nær jörðinni og mynstrið endist lengur). 

    Við á íslandi látum ekki snjóinn halda aftur af okkur í utanvegahlaupum og er þá gott að vera í skóm með grófu mynstri og jafnvel með nöglum eða nota hlaupabrodda. Best er að leita af skóm með góðann stuðning og auka vörn gegn bleytu (Goretex) til að halda fótunum þurrum og hlýjum.

      Vegalengdir og hlaupamagn


      -Ef þú ert byrjandi í utanvegahlaupum og hleypur nokkrum sinnum á mánuði ættir þú að velja þér létta og fjölhæfa skó. Númer eitt, tvö og þrjú er að þeir séu þægilegir og passi vel áður en þú kaupir þá.

      -Ef þú ert vanari utanvegahlaupari sem er að leitast eftir að bæta sig og hlaupa lengri vegalengdir, ættu skórnir að vera með auka vörn, dempun og góðum stuðning. Þeir eru þá góðir fyrir langar æfingar og keppnir.

      -Ef þú villt keppa og berjast um sæti, vilt þú fara í léttu og tæknilegu skóna sem hannaðir fyrir hraða, nákvæmni og ákveðin undirlög. Með nægilega mikla vörn og dempun til að vernda fæturna.

      Vegalengd

      Vegalengdin sem þú munt hlaupa er annar þáttur sem þarf að hafa í huga þegar skór eru valdir. Fyrir styttri hlaup (minna en 15 km) ættir þú að leita eftir léttum og viðbragðsgóðum skóm. Fyrir millivegalengdir (20-50 km) ættir þú að velja þægilega skó með góðan stuðning. Fyrir 50+ km ultra hlaup ættir þú að velja góða skó með auka vörn og dempun sem gefur þægindi og öryggi yfir lengri vegalengdir. 

      Líkamsbygging

      Líkamsbygging skiptir líka máli þegar skór eru valdir. Þeir sem eru stærri og þyngri þurfa skó sem hafa meiri dempun og stuðning. Þeir sem eru minni og léttari geta leyft sér léttari skó.

      Stærð á skóm

      Það mikilvægasta er þegar skór eru mátaðir að þeir séu þægilegir og passi vel, ef þeir nudda, þrengja að fætinum eða passa illa er ekki gott að “hlaupa þá til”. Stærðin á skónum skiptir líka miklu máli. Best er að máta hlaupaskó seinni part dags því fóturinn tútnar út yfir daginn líkt og í löngum hlaupum. Gott er að miða við 1 cm bil milli tánna og endans á skónum til að koma í veg fyrir blöðrur og ónýtar táneglur.

      Þegar valdir eru utanvegahlaupaskór, þarf að hafa í huga:

      • Á hvaða undirlagi þú hleypur.
      • Hver eru þín markmið og hversu oft þú hleypur.
      • Vegalengdirnar sem þú hleypur.
      • Þyngd þín og stærð
      • Hvernig skórnir passa á fætinum.
      • Fyrri reynsla (Byrjandi, vanur, lengra kominn)

      Fleiri færslur

      Andrea Kolbeins

      Það er ekkert betra en að koma í mark og ná markmiðunum sínum.

      Gönguskíðaráð

      Nokkur góð ráð frá Andreu Kolbeinsdóttur til að koma þér af stað á gönguskíðum.